Vegir hækka, vegir lengjast,
vegum nýjum héruð tengjast.
Réttir ungur aðra hönd
Ísafjörður Barðaströnd.
Þar sem Mjólká magn sitt breiðir
mönnum opnast nýjar leiðir,
yngist sál og auðgast jörð
eftir nýja vegagjörð.
Hér er brautin byggð af snilli,
bræðravegur sýslna milli.
Stendur opin auð og greið
Ísfirðingum suðurleið.
Þeir sem luktust áður inni
aka nú í gleði sinni
þar sem urð og eggjagrjót
áður þreyttu sáran fót.
Hér er furðu fagur vegur
ferðamönnum ævinlegur
þar sem áður enga slóð
útigönguklaufin tróð.
Vel sé þeim sem verkin unnu,
vegarúnir sínar kunnu,
lyftu byggðum okkar af
einangrunar galdrastaf.
Nú skal fagna nýjum vegi,
nýrri sókn með hverjum degi,
láta vesturfirði fá
frama þann sem völ er á.
Guðmundur Ingi Kristjánsson, 1.okt. 1959.